Fimm snudduráð sem gætu nýst vel

image

„Ertu ennþá með duddu?, „Ertu ekki orðin svolítið stór til þess að vera með duddu?“ – þetta eru setningar og spurningar sem dóttir mín hefur fengið að heyra ansi oft. Þó hún sé bara nýorðin þriggja ára. Ég veit að tilgangurinn með þessum spurningum er enginn sérstakur og allra síst af hinu vonda frá þeim sem spyr en hverju á blessað barnið samt að svara? Það er oftast þarna sem að við, sem foreldrar, förum í klemmu og afsökum einhvernveginn snuddunotkunina.

Jahá, Það er pressa þarna úti í samfélaginu á okkur foreldrana, það er víst óhætt að segja það.

Úti í Bandaríkjunum er miðað við að börn séu hætt með snuð um eins árs aldur. Það er eiginlega ekki „gúdderað“ að börn noti snuð hjá dagmömmu eða í leikskóla ef þau eru komin upp fyrir þann aldur þar í landi. Hér heima finnst mér raunverulega allur gangur á því hvenær börn hætti með snuð en það er alveg haft orð á því ef barnið er komið um eða yfir tveggja ára aldurinn. Oft miðað við þriggja ára af fagfólki sem að vinnur við ungbarnaeftirlitið á heilsugæslunum og tel ég það bara vera hinn fullkomlega rétti tími til þess að miða við (eða fyrr ef það gengur upp).

Hér að neðan ætla ég að telja upp fimm sniðugar leiðir sem margir kannast kannski við en aðrir foreldrar sem standa í snudduveseni geta nýtt sér á góðan máta. Ég er nú enginn sérfræðingur í uppeldismálum en maður veit nú svona sitthvað og þá einna helst að það virkar oft ekki alltaf það sama á alla þannig það getur verið sniðugt að hafa margt í sigtinu, það er svo spennandi.

1. Afmæli barnsins: Hvaða afmælisdagur sem það er, hvort sem það sé tveggja ára, þriggja ára, fjögurra ára eða hvað – verið búin að undirbúa barnið þannig að þegar það verður, til dæmis, þriggja ára að þá á það að hætta með duddu. Það hentar vel fyrir marga að nýta þann dag í að fagna því að barnið sé orðið árinu eldra, ofsa stórt með sig. Það er hægt að leyfa barninu að gera ýmislegt til þess að kveðja snuðin, allt frá því að baka með ykkur dudduköku á afmælisdaginn með því að skreyta kökuna með duddunum, fá að klippa túttuna af (með hjálp auðvitað) eða hreinlega bara henda duddunum í ruslið þann dag. Þið verðið þá væntanlega búin að æfa það svolítið að vera snuddulaus. Það tekur alltaf einhverja daga.

2. Jólasveinninn: Klassík! Margir nota sveinka til þess að gefa duddurnar því hann á víst að elska snuddusúpu. Hann er líka með svo mikið vald yfir börnunum yfir jólatímann að það er kannski auðvelt að nota hann til hjálpar í snudduveseninu. Hann nefninlega á stóran kíkir sem að sér hvort að börnin séu stillt eða óþekk. Dugleg að hætta með dudduna eða ekki. Mörgum finnst algjör vitleysa að fara í gegnum þetta ofan á allt jólastressið en það fer bara eftir hverjum og einum. Munið bara að mála Jólasveininn ekki sem vonda karlinn þó að þráðurinn verði kannski stuttur í stressinu, Jólasveininn er góður.

3. Snudduálfurinn: Þessi gaur er algjört brill, því hann er hægt að nota á hvaða árstíma sem er. Algjörlega þegar þið eruð tilbúin til þess að gefa snuddurnar upp á bátinn. Hann getur virkað líkt og Tannálfurinn þar sem að duddurnar eru settar undir koddann. Geta verið allar í einu og uppskera einhvern góðan glaðning þegar barnið vaknar, eða lengja þetta ferli aðeins með því að setja eina og eina og fá alltaf einhverja litla pakka í staðinn. Hinsvegar er líka hægt að taka þetta með Snudduálfinn á hærra plan með því að vera búin að finna einhvern stóran stein úti í náttúrunni, fara með barnið að steininum og sýna því að þarna inni búi álfurinn. Það virkjar ímyndunarafl barnsins til hins ýtrasta, sem er hollt og gott. Svo þegar barnið og foreldrar eru tilbúin þá er farin með duddurnar í poka og þær settar á steininn. Svo er farið heim, lúllað í eina nótt án snuddunnar og farið að steininum. Ef það hefur gengið vel þá ætti Snudduálfurinn að hafa skilið eftir einhverja gjöf fyrir framan steininn í skiptum fyrir duddurnar. (Athugið að foreldrarnir þurfa sjálfir að sjá um gjafamálin, Snudduálfurinn er bara uppspuni).

4. Leynistaður: Þennan kost er vel hægt að nota til þess að barninu finnist það hafa stjórn og val. Gott til dæmis í ferlinu sjálfu að gefa sér tíma í að leyfa barninu að finna leynistað fyrir dudduna um leið og það vaknar á morgnanna. Reyna að beina barninu að því að „fela“ dudduna einhversstaðar hátt uppi þar sem að snuðið sést en barnið nær ekki til. Notið ykkar eigin ímyndunarafl og látið barnið finna að þið hafið líka gaman að þessu. Það getur haft margt að segja í þessu öllu saman.

5. Húsdýragarðurinn: Mörg börn hafa farið með duddurnar sínar í Fjölskyldu -og húsdýragarðinn og skilið þær eftir þar í Fjósinu handa öllum ungviðunum. Það er mjög skemmtilegt að gera sér ferð einhvern vel valinn dag þangað og gefa litlu greyjunum duddurnar. Þau börn sem ekki komast í Húsdýragarðinn og búa jafnvel úti á landi hafa meira að segja mörg hver sent snuðin sín með pósti til „meme“ og það má alveg líka. Örugglega pínu sport að fara með duddurnar á pósthúsið.

Hvað sem þið gerið til þess að láta barnið ykkar hætta með snuð, munið að leika með, búið til sniðugar og fallegar sögur í kringum um hlutina, verið frjó og notið ímyndunaraflið. Það er í alvörunni hollt og gott fyrir barnið (ef það fer ekki út fyrir velsæmismörk). Og fyrir alla muni – munið að taka allan þann tíma sem þarf til þess að undirbúa barnið. Þetta er mjög erfitt fyrir þau mörg hver, enda aldrei auðvelt að hætta einhverju sem maður hefur vanið sig á er jafnvel orðinn háður. Ekki hlusta of mikið á pressutalið í Jóni og Gunni, ömmu og afa eða hverjum sem er, þetta kemur allt með kalda vatninu. Það gerði það í okkar tilfelli, nú er dóttir mín hætt með snuð og það var ekkert mál, snuddusjúkara barn hef ég aldrei hitt. (Hefðum átt að mikla þetta aðeins meira fyrir okkur, foreldrarnir).

Þú ert foreldrið og þú ert vonandi með velferð og vellíðan barnsins þíns í algjörum forgangi. Gangi ykkur vel!

-Ásthildur Hannesdóttir.


Join the Conversation